Félagskvíði | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er félagskvíði?

Félagskvíði

  • Finnst þér erfitt að vera þú sjálf(ur) í kringum annað fólk?
  • Finnur þú fyrir kvíða í samskiptum við aðra?
  • Ertu félagslega einangruð/aður?

Eðlilegt er að upplifa stundum kvíða í samskiptum við annað fólk. Til dæmis finna margir fyrir kvíða þegar þeir fara í atvinnuviðtal, á stefnumót eða halda ræðu. Þegar kvíðinn er óhóflega mikill og viðvarandi getur verið um félagskvíða að ræða. Félagskvíði (einnig þekkt sem félagsfælni) felur í sér mjög mikla hræðslu við eina eða fleiri félagslegar aðstæður. Félagslegar aðstæður eru allar aðstæður þar sem við sjálf og annað fólk er til staðar, til dæmis að halda uppi samræðum, tala við ókunnuga, halda fyrirlestur, fara í veislu og segja nei við aðra. Fólk forðast þessar aðstæður eða þraukar þær þrátt fyrir mikinn kvíða.

Fólk finnur fyrir kvíða í félagslegum aðstæðum eða við að hugsa um slíkar aðstæður. Ástæða kvíðans er hræðsla við að koma illa fyrir, gera sig að athlægi (t.d. með því að segja eða gera eitthvað vitlaust) og verða metinn á neikvæðan hátt af öðrum. Þeir sem finna fyrir félagskvíða gera ráð fyrir því versta í félagslegum aðstæðum. Þeir gera ekki endilega eitthvað til að verða sér til skammar en óttast að það muni gerast eða halda að þeir hafi orðið sér til skammar.

Félagskvíði getur verið sértækur og átt við ákveðnar félagslegar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga) eða almennur og átt við flestar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga, borða fyrir framan aðra, tala fyrir framan aðra o.s.frv.). Fólk gerir sér grein fyrir að kvíðinn er óhjálplegur og órökréttur en veit ekki hvernig það á að takast á við hann. Einkenni félagskvíða geta verið breytileg hverju sinni og aukist þegar fólk er undir miklu álagi.

Algeng einkenni félagskvíða

Forðun eða flótti

Að forðast félagslegar aðstæður sem valda kvíða. Að flýja úr félagslegum aðstæðum sem valda kvíða.

Óhjálpleg hegðun

Að grípa til hegðunar sem ætlað er að minnka kvíða en eykur hann (t.d. að fara í símann, þykjast vera upptekinn eða forðast augnsamband).

Sjálfmiðuð athygli

Að vera meðvitaður um sjálfan sig og hvernig maður kemur öðrum fyrir sjónir í félagslegum aðstæðum.

Neikvæðar hugsanir

Að eyða miklum tíma í að hugsa um hvernig maður kom öðrum fyrir sjónir eftir að maður yfirgefur aðstæðurnar. Að einblína á hvað maður sagði eða gerði vitlaust.

Líkamleg einkenni

Til dæmis hiti í andliti, hraður hjartsláttur, skjálfti, sviti, magaverkur, erfiðleikar með andardrátt, svimi og vöðvaspenna.

Ótti vegna líkamlegra einkenna

Ótti við að aðrir taki eftir líkamlegum kvíðaeinkennum (t.d. roði, sviti, skjálfti og spennt raddbönd).

Hugræn einkenni

Upplifa að hugurinn tæmist, að geta ekki einbeitt sér, minniserfiðleikar eða að upplifa enga stjórn á eigin hugsunum.

Þrauka aðstæður

Að þrauka félagslegar aðstæður en upplifa mjög mikinn kvíða.

 

Hvenær er félagskvíði vandamál?

Félagskvíði getur talist vandamál þegar hann er óhóflega mikill og hefur áhrif á mismunandi svið lífsins, t.d. frammistöðu í vinnu eða skóla, sambönd við fjölskyldu og vini, frístundir, áhugamál og daglegar athafnir. Félagskvíði getur valdið vandræðum í vinnu og skóla ef að fólk getur t.d. ekki farið í atvinnuviðtöl eða svarað spurningum fyrir framan aðra. Hann getur verið vandamál í samböndum ef fólk getur ekki kynnst öðru fólki, farið á stefnumót og sagt nei við aðra. Félagskvíði getur valdið vandræðum í frístundum þegar fólk forðast að gera nýja hluti, fara á námskeið eða hreyfa sig. Hann getur að lokum valdið vandræðum ef að hann kemur í veg fyrir daglegar athafnir eins og að versla í matinn, sækja börnin í skólann, fara í afmælisboð og fara út að borða o.s.frv.

 

Algengi félagskvíða

Félagskvíði er algengasta gerð kvíða sem fólk finnur fyrir. Margir upplifa félagskvíða um allan heim og háir hann um 12% fólks. Það þýðir að þú þekkir líklegast einhvern sem er með einkenni félagskvíða! 

 

Hverjir finna fyrir einkennum félagskvíða?

Allir geta upplifað félagskvíða. Hann kemur fram hjá konum og körlum á öllum aldri, í öllum stéttum og öllum kynþáttum. Konur eru líklegri til að upplifa félagskvíða en karlar.

 

TAKTU FYRSTA SKREFIÐ Í ÁTT AÐ BETRLI LÍÐAN

10 tíma sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu við vægum til miðlungs einkennum félagskvíða (einnig þekkt sem félagsfælni). Meðferðartímarnir innihalda fræðslu, verkefni, æfingar og spurningalista. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Öll samskipti fara fram í gegnum skrifaðan texta. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er á öruggu heimasvæði Mín líðan yfir áskriftartímann. Markmiðið er að þú náir tökum á þinni líðan með aðstoð sálfræðings!

39.900 kr.

fyrir meðferðina

14.500kr./mán.

Í þrjá mánuði.
Heildargreiðsla: 43.500 kr.

VILTU RÆÐA VIÐ SÁLFRÆÐING AUGLITI TIL AUGLITIS?

Sálfræðiviðtöl á netinu

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr einkennum félagskvíða með staðlaðri sálfræðimeðferð við félagskvíða eða fjarviðtölum.

Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, t.d. einkennum kvíða (t.d. félagskvíða, almenns kvíða, ofsakvíða og heilsukvíða), þunglyndislágu sjálfsmati og áfallastreitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.

Sálfræðingar Mín líðan nota aðeins gagnreyndar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkar við að draga úr einkennum félagskvíða. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við einkennum félagskvíða.

Í sálfræðiviðtölum hjá Mín líðan er byrjað á að fara yfir og kortleggja vítahring félagskvíða. Skoðað er hvaða þættir viðhalda honum og vítahringurinn brotinn upp með hjálplegum, gagnreyndum aðferðum. Það felur m.a. í sér að læra að fara í aðstæður sem valda þér kvíða og koma auga á jákvæða eiginleika í þínu fari.

Bókaðu fyrsta sálfræðiviðtalið strax í dag

Hvernig bóka ég fjarviðtal?

Veldu sálfræðing

Þú velur sálfræðing sem þú vilt hefja meðferð hjá. Hjá Mín líðan starfa reyndir sálfræðingar sem veita þér persónulega og góða þjónustu.

Bókaðu tíma

Þú nýskráir þig og fyllir út upplýsingar um þig. Þinn sálfræðingur hefur samband við þig og þið finnið tíma fyrir fjarviðtal.

Mættu í fjarviðtal

Þú skráir þig inn á heimasvæðið þegar viðtalið er að hefjast, ferð í myndfundakerfið og byrjar fjarviðtalið með þínum sálfræðingi.