Hvað er ofsakvíði?
Ofsakvíði
Ofsakvíði (einnig þekkt sem felmtursröskun) felur í sér endurtekin, skyndileg kvíðaköst. Kvíðakast er gífurleg hræðsla sem nær hámarki á nokkrum mínútum og því fylgir líkamleg og hugræn einkenni (t.d. hraður hjartsláttur, köfnunartilfinning, svimi, skjálfti, hröð öndun, óraunveruleikatilfinning og finnast maður vera að deyja eða missa stjórn á sjálfum sér). Hægt er að lesa nánar um líkamleg kvíðaeinkenni hér.
Kvíðakastið kemur upp skyndilega og án sýnilegrar ástæðu, engin raunveruleg hætta er til staðar. Fólki líður eins og kvíðakastið komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. Kvíðaköst hafa mismunandi áhrif á fólk en það kemst yfirleitt í mikið uppnám þegar þetta gerist og hefur áhyggjur af því að eitthvað alvarlegt ami að. Fólk byrjar að hafa sífelldar áhyggjur af því að fá annað kvíðakast eða breytir hegðun sinni á einhvern hátt til að koma í veg fyrir kvíðakast (t.d. að forðast hreyfingu, ókunnuga staði eða samskipti við annað fólk vegna ótta að verða sér til skammar).
Kvíðaköst eru ekki hættuleg en geta valdið fólki verulegum óþægindum og truflað daglegt líf. Mismunandi er hversu mörg kvíðaköst fólk fær, sumir fá aðeins eitt kvíðakast um ævina (og er þá ekki um ofsakvíða að ræða) en aðrir fá þau reglulega (allt frá einu sinni á ári til einu sinni á dag).