Ofsakvíði | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er ofsakvíði?

Ofsakvíði

Ofsakvíði (einnig þekkt sem felmtursröskun) felur í sér endurtekin, skyndileg kvíðaköst. Kvíðakast er gífurleg hræðsla sem nær hámarki á nokkrum mínútum og því fylgir líkamleg og hugræn einkenni (t.d. hraður hjartsláttur, köfnunartilfinning, svimi, skjálfti, hröð öndun, óraunveruleikatilfinning og finnast maður vera að deyja eða missa stjórn á sjálfum sér). Hægt er að lesa nánar um líkamleg kvíðaeinkenni hér.

Kvíðakastið kemur upp skyndilega og án sýnilegrar ástæðu, engin raunveruleg hætta er til staðar. Fólki líður eins og kvíðakastið komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. Kvíðaköst hafa mismunandi áhrif á fólk en það kemst yfirleitt í mikið uppnám þegar þetta gerist og hefur áhyggjur af því að eitthvað alvarlegt ami að. Fólk byrjar að hafa sífelldar áhyggjur af því að fá annað kvíðakast eða breytir hegðun sinni á einhvern hátt til að koma í veg fyrir kvíðakast (t.d. að forðast hreyfingu, ókunnuga staði eða samskipti við annað fólk vegna ótta að verða sér til skammar).

Kvíðaköst eru ekki hættuleg en geta valdið fólki verulegum óþægindum og truflað daglegt líf. Mismunandi er hversu mörg kvíðaköst fólk fær, sumir fá aðeins eitt kvíðakast um ævina (og er þá ekki um ofsakvíða að ræða) en aðrir fá þau reglulega (allt frá einu sinni á ári til einu sinni á dag).

Helstu einkenni ofsakvíða

Sterk líkamleg einkenni

Til dæmis ör hjartsláttur eða missa úr slag, finnast hjartað vera að stoppa, brjóstverkir, ör öndun eða missa andann, köfnunartilfinning, doði í útlimum, höfuðverkur, sviti, erfiðleikar með að kyngja, svimi, yfirlifstilfinning, ógleði, magaverkur, og skjálfti.

Neikvæðar hugsanir

Órökréttar hugsanir þar sem búist er við því versta (t.d. Ég er að deyja - Ég mun fá hjartaáfall - Ég er að missa vitið - Ég er að missa stjórn).

Ótti við kvíða

Ótti við að fá annað kvíðakast

Óhjálpleg hegðun

Fólk forðast eða flýr aðstæður þar sem það gæti fengið kvíðakast.

Hugræn einkenni

Óraunveruleikatilfinning, ótti við að missa stjórn eða missa vitið og ótti við að deyja.

Dragðu úr ofsakvíða með aðstoð sálfræðings

Hvernig getum við hjálpað þér?

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr einkennum ofsakvíða með fjarviðtölum. Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, t.d. einkennum kvíða (t.d. ofsakvíða, félagskvíða, almenns kvíða og heilsukvíða), þunglyndislágu sjálfsmati og áfallastreitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.

Sálfræðingar Mín líðan nota aðeins gagnreyndar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkar við að draga úr einkennum ofsakvíða. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við flestum gerðum sálræns vanda.

Í sálfræðimeðferð hjá Mín líðan er byrjað á að fara yfir og kortleggja vítahring ofsakvíða, skoðað er hvaða þættir viðhalda honum og vítahringurinn brotinn upp með hjálplegum, gagnreyndum aðferðum.

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Hvernig bóka ég fjarviðtal?

Veldu sálfræðing

Þú velur sálfræðing sem þú vilt hefja meðferð hjá. Hjá Mín líðan starfa reyndir sálfræðingar sem veita þér persónulega og góða þjónustu.

Bókaðu tíma

Þú nýskráir þig og fyllir út upplýsingar um þig. Þinn sálfræðingur hefur samband við þig og þið finnið tíma fyrir fjarviðtal.

Mættu í fjarviðtal

Þú skráir þig inn á heimasvæðið þegar viðtalið er að hefjast, ferð í myndfundakerfið og byrjar fjarviðtalið með þínum sálfræðingi.