Almennur kvíði | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er almennur kvíði?

Almennur kvíði

  • Verður þú oft kvíðin(n) eða áhyggjufull(ur) vegna margvíslegra málefna?
  • Átt þú erfitt með að stjórna áhyggjunum?
  • Finnur þú fyrir óþægilegum, líkamlegum kvíðaeinkennum?
  • Koma áhyggjurnar í veg fyrir að þú njótir lífsins?

Allir hafa áhyggjur einhvern tímann á ævinni. Áhyggjur fela t.d. í sér að óttast um ástvin sem er að fara með flugvél á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, að eiga ekki fyrir næstu innborgun á íbúðarlánið eða að falla á prófi. Eðlilegt er að hafa áhyggjur upp að vissu marki þar sem þær hjálpa okkur að bregðast við mögulegum vandamálum. Þegar áhyggjurnar eru farnar að valda okkur vanlíðan og trufla okkur í daglegu lífi getur verið um almennan kvíða að ræða.

Almennur kvíði felur í sér of miklar og viðvarandi áhyggjur af margs konar hlutum sem eru okkur mikilvægir. Áhyggjur eru skilgreindar sem röð neikvæðra hugsana varðandi framtíðina. Almennum kvíða geta fylgt ýmis líkamleg einkenni og eru þau oftast ástæða þess að fólk leitar sér meðferðar.

Kvíðinn sem fólk upplifir er mun meiri en aðstæður gefa tilefni til og truflar yfirleitt daglegt líf hjá fólki. Margir sem upplifa almennan kvíða lýsa því að þeir hafi verið kvíðnir eða stressaðir allt sitt líf. Fólk með almennan kvíða hefur oft lítið sjálfstraust og efast um að það geti náð tökum á kvíðanum.

Manneskja með almennan kvíða getur eytt nokkrum mínútum upp í margar klukkustundir á dag að hafa áhyggjur, t.d. af fjármálum, ábyrgð í vinnu, samböndum, heilsu sinni og fjölskyldumeðlima, eigin frammistöðu eða minniháttar málum eins og að halda húsinu hreinu eða vera of seinn á fund. Þessar áhyggjur snúa að hlutum sem eru mjög ólíklegir til að gerast og því eru áhyggjurnar ekki í samræmi við aðstæður. Fólk er því með kvíða að tilefnislausu. Fólki með almennan kvíða finnst óvissa mjög óþægileg og finnst mikilvægt að vita hvað gerist í framtíðinni. Rannsóknir hafa sýnt að algengt er að áhyggjurnar komi fram í formi „Hvað ef...?” setninga.

 

Helstu einkenni almenns kvíða

Eirðarleysi

Að finnast maður vera á nálum. Að vera meira á verði og tilbúnari að bregðast við.

Þreyta

Að þreytast auðveldlega. Mikil orka fer í að hafa stanslausar áhyggjur.

Einbeitingarerfiðleikar

Erfiðleikar við einbeitingu eða finnast hugurinn tæmast. Að vera stanslaust að hugsa um áhyggjurnar og eiga þess vegna erfiðara með að einbeita sér að öðru.

Pirringur

Að upplifa meiri pirring en venjulega, sem aðrir og/eða maður sjálfur tekur eftir.

Vöðvaspenna

Líkaminn getur spennst upp, t.d. í kjálka og öxlum, sem getur leitt til þess að við fáum höfuðverk.

Svefnerfiðleikar

Að eiga erfitt með að sofna, erfitt að halda sér sofandi, vakna fyrr en venjulega og geta ekki sofnað aftur eða sofa of mikið.

Önnur líkamleg einkenni

Til dæmis skjálfti í höndum og fótum, vöðvabólga eða verkir í vöðvum, sviti, ógleði og niðurgangur.

 

Afleiðingar almenns kvíða

Fólk með almennan kvíða finnur oft fyrir kvíða allan daginn sem getur truflað það í vinnu, skóla eða samskiptum og komið í veg fyrir að það nái að slaka á. Þessar stanslausu áhyggjur gera fólki erfiðara fyrir að einbeita sér, þær draga úr orku, trufla svefn og valda mikilli þreytu í líkamanum. Fólki finnst erfitt að stjórna þessum áhyggjum og reynir oft að fá hughreystingu frá öðrum en þrátt fyrir það halda áhyggjurnar áfram. Fólk frestar oft að gera hluti því áhyggjurnar eru svo yfirþyrmandi og forðast aðstæður sem valda því kvíða.

 

Algengi almenns kvíða

Talið er að 4-7% einstaklinga þjáist af almennum kvíða einhvern tímann á ævinni. Algengt er að fólk upplifi almennan kvíða í kringum þrítugt og greinist um miðjan aldur. Almennur kvíði getur þó komið fram á hvaða aldri sem er en hann kemur yfirleitt seinna fram en aðrar gerðir kvíða. 

 

Hverjir finna fyrir einkennum almenns kvíða?

Allir geta fundið fyrir almennum kvíða. Hann kemur fram hjá konum og körlum á öllum aldri, í öllum stéttum og öllum kynþáttum. Konur eru líklegri til að finna fyrir almennum kvíða en karlar.

 

Dragðu úr almennum kvíða með aðstoð sálfræðings

Hvernig getum við hjálpað þér?

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr einkennum almenns kvíða með fjarviðtölum. Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, s.s. einkennum kvíða (t.d. almenns kvíða, félagskvíða, ofsakvíða og heilsukvíða), þunglyndislágu sjálfsmati og áfallastreitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.

Sálfræðingar Mín líðan nota aðeins gagnreyndar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkar við að draga úr einkennum almenns kvíða. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við einkennum almenns kvíða.

Í sálfræðimeðferð hjá Mín líðan er byrjað á að fara yfir og kortleggja vítahring almenns kvíða, skoðað er hvaða þættir viðhalda honum og vítahringurinn brotinn upp með hjálplegum, gagnreyndum aðferðum. Það felur m.a. í sér að auka óvissuþol auk þess að breyta hvernig við hugsum og hegðum okkur.

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Hvernig bóka ég fjarviðtal?

Veldu sálfræðing

Þú velur sálfræðing sem þú vilt hefja meðferð hjá. Hjá Mín líðan starfa reyndir sálfræðingar sem veita þér persónulega og góða þjónustu.

Bókaðu tíma

Þú nýskráir þig og fyllir út upplýsingar um þig. Þinn sálfræðingur hefur samband við þig og þið finnið tíma fyrir fjarviðtal.

Mættu í fjarviðtal

Þú skráir þig inn á heimasvæðið þegar viðtalið er að hefjast, ferð í myndfundakerfið og byrjar fjarviðtalið með þínum sálfræðingi.