Hvað er almennur kvíði?
Almennur kvíði
- Verður þú oft kvíðin(n) eða áhyggjufull(ur) vegna margvíslegra málefna?
- Átt þú erfitt með að stjórna áhyggjunum?
- Finnur þú fyrir óþægilegum, líkamlegum kvíðaeinkennum?
- Koma áhyggjurnar í veg fyrir að þú njótir lífsins?
Allir hafa áhyggjur einhvern tímann á ævinni. Áhyggjur fela t.d. í sér að óttast um ástvin sem er að fara með flugvél á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, að eiga ekki fyrir næstu innborgun á íbúðarlánið eða að falla á prófi. Eðlilegt er að hafa áhyggjur upp að vissu marki þar sem þær hjálpa okkur að bregðast við mögulegum vandamálum. Þegar áhyggjurnar eru farnar að valda okkur vanlíðan og trufla okkur í daglegu lífi getur verið um almennan kvíða að ræða.
Almennur kvíði felur í sér of miklar og viðvarandi áhyggjur af margs konar hlutum sem eru okkur mikilvægir. Áhyggjur eru skilgreindar sem röð neikvæðra hugsana varðandi framtíðina. Almennum kvíða geta fylgt ýmis líkamleg einkenni og eru þau oftast ástæða þess að fólk leitar sér meðferðar.
Kvíðinn sem fólk upplifir er mun meiri en aðstæður gefa tilefni til og truflar yfirleitt daglegt líf hjá fólki. Margir sem upplifa almennan kvíða lýsa því að þeir hafi verið kvíðnir eða stressaðir allt sitt líf. Fólk með almennan kvíða hefur oft lítið sjálfstraust og efast um að það geti náð tökum á kvíðanum.
Manneskja með almennan kvíða getur eytt nokkrum mínútum upp í margar klukkustundir á dag að hafa áhyggjur, t.d. af fjármálum, ábyrgð í vinnu, samböndum, heilsu sinni og fjölskyldumeðlima, eigin frammistöðu eða minniháttar málum eins og að halda húsinu hreinu eða vera of seinn á fund. Þessar áhyggjur snúa að hlutum sem eru mjög ólíklegir til að gerast og því eru áhyggjurnar ekki í samræmi við aðstæður. Fólk er því með kvíða að tilefnislausu. Fólki með almennan kvíða finnst óvissa mjög óþægileg og finnst mikilvægt að vita hvað gerist í framtíðinni. Rannsóknir hafa sýnt að algengt er að áhyggjurnar komi fram í formi „Hvað ef...?” setninga.