Hvað er streita?
Streita
Streita er eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir á einhverjum tímapunkti í lífinu. Streita er viðbragð líkamans við andlegu, líkamlegu eða tilfinningalegu álagi. Við getum fundið fyrir streitu í ýmsum aðstæðum, t.d. þegar mikið álag er á okkur í vinnu eða einkalífi, þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir eða klára verkefni í vinnunni á stuttum tíma, þegar samband okkar við maka gengur illa eða þegar við förum yfir fjármál heimilisins. Fólk finnur fyrir streitu við mismunandi aðstæður og það sem kallar fram streitu hjá einni manneskju hefur ekki endilega áhrif á einhvern annan.
Streituvaldandi aðstæður eru hluti af daglegu lífi. Streita er ekki alltaf slæm, hæfileg streita getur verið mjög hjálpleg, til dæmis þegar við þurfum að halda ræðu og það gengur frábærlega. Það getur verið streituvaldandi, en veitir okkur líka ánægju. Streita hvetur okkur áfram, hjálpar okkur að mæta áskorunum, skerpir athygli okkar og við stöndum okkur oft best og náum mestum árangri þegar við finnum fyrir örlítilli streitu. Hún hjálpar okkur að bæta frammistöðu okkur, t.d. að undirbúa okkur fyrir atvinnuviðtal, klára verkefni, læra fyrir próf, undirbúa fyrirlestur, fara á fund, undirbúa okkur fyrir stefnumót eða æfa okkur fyrir íþróttamót.
Óhófleg streita
Þegar streita verður viðvarandi og truflar daglegt líf er hún ekki lengur hjálpleg. Þegar við erum undir miklu álagi í langan tíma getur það haft slæm áhrif á okkur og valdið því að við erum með sífelldar áhyggjur, þráðurinn verður styttri, við getum átt erfitt með að einbeita okkur og átt í erfiðleikum með svefn. Líkami okkar ræður við minniháttar streitu en langvarandi, viðvarandi og óhófleg streita getur gert okkur erfiðara fyrir að takast á við daglegt líf og dregið úr lífshamingju okkar.
Með því að þekkja eigin einkenni streitu eigum við auðveldara með að meta hvenær við finnum fyrir „eðlilegri streitu” og hvenær ástandið gæti talist sem vandamál. Einkenni streitu eru mismunandi milli fólks en geta verið eftirfarandi: