Hugræn atferlismeðferð | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er hugræn atferlismeðferð?

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er ein algengasta sálfræðimeðferðin sem notuð er til að takast á við sálrænan vanda, eins og þunglyndi, félagskvíða, lágt sjálfsmat, almennan kvíða, ofsakvíða, heilsukvíða, áráttu- og þráhyggju, sértæka fælni, svefnvandamál og áfallastreitu. Hún byggir á árangursríkum, vísindalegum aðferðum sem snúast um að læra nýjar leiðir til að takast á við vanlíðan. Meðferðin er gagnreynd, sem þýðir að margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hún virki og skili árangri. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við flestum gerðum sálræns vanda.

HAM byggir á því að hugsanir okkar og hegðun hafi áhrif á hvernig okkur líður. Að skilja hvernig hugsanir, hegðun og tilfinningar tengjast auðveldar þér að hafa áhrif á og ná stjórn á eigin líðan. Hegðun hefur áhrif á hugsanir, hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og tilfinningar hafa áhrif á hvernig við hegðum okkur. Þegar einum þætti í þessum hring er breytt (t.d. hugsun) hefur það áhrif á hina þættina (þ.e. hegðun og tilfinningar). Markmið HAM er m.a. að breyta neikvæðum, óhjálplegum hugsunum og hegðun og draga þannig úr sálrænum vanda.

Tökum dæmi til að skilja betur hvernig hugsanir, hegðun og tilfinningar tengjast. Ef vinur okkar svarar ekki í símann í tvo daga gætum við hugsað: „Voðalega er mikið að gera hjá honum, hann hefur ekki tíma til að svara símtölum.” Þessi hugsun er hlutlaus, hún er ólíkleg til að vekja upp sterkar tilfinningar og hefur því lítil áhrif á hvernig okkur líður. Við gætum líka hugsað: „Hann er að forðast mig, hann vill ekki tala við mig.” Þessi hugsun er miklu sterkari en sú fyrri og er líklegri til að kalla fram sterkar tilfinningar eins og kvíða, depurð og óöryggi. Hugsunin getur leitt til breyttrar hegðunar, t.d. að við hættum að hafa samband við vin okkar eða aðra vini vegna ótta við höfnun.

 

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

HAM á netinu

Allir sálfræðingar Mín líðan hafa reynslu af því að veita hugræna atferlismeðferð. Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr sálrænum vanda með: 1) Staðlaðri sálfræðimeðferð á netinu eða 2) fjarviðtölum.

Stöðluð sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu við vægum til miðlungs einkennum þunglyndis, félagskvíða og einnig við lágu sjálfsmati. Meðferðartímarnir innihalda fræðslu, verkefni, æfingar og spurningalista. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Öll samskipti fara fram í gegnum skrifaðan texta. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er á öruggu heimasvæði Mín líðan yfir áskriftartímann. Hægt er að prófa frían kynningartíma. Markmiðið er að þú náir tökum á þinni líðan með aðstoð sálfræðings!

Fjarviðtöl

Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, s.s. lágu sjálfsmati, einkennum þunglyndis, almenns kvíða, félagskvíða og streitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.