Hvað er átröskun?
Átröskun
Átröskun er langvinnur geðsjúkdómur sem einkennist af alvarlegri og viðvarandi truflun á mataræði. Undir heitinu átröskun falla nokkrir geðsjúkdómar (sjá nánar hér fyrir neðan). Um er að ræða samspil líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta sem hafa áhrif á hver annan. Átröskun getur haft miklar líkamlegar afleiðingar og í sumum tilfellum leitt til dauða. Sálrænu áhrif átröskunar eru m.a. erfiðar hugsanir (t.d. truflun á sjálfsmynd) og neikvæðar tilfinningar (t.d. kvíði og þunglyndi). Flest fólk með átröskun er yfirleitt í kjörþyngd og jafnvel yfir kjörþyngd. Algengast er að ungar konur glími við átraskanir, þó að þær geti komið fram hjá öllum kynjum og aldurshópum. Til eru mismunandi gerðir átraskana og eru helstu flokkarnir eftirfarandi:
- Lystarstol (anorexia nervosa): Einkennist af mikilli hræðslu við að þyngjast, þó að fólk sé í undirþyngd. Algengt er að fólk fari í megrun sem verður að sjálfsvelti eða noti aðrar aðferðir til að grenna sig.
- Lotugræðgi (bulimia nervosa): Einkennist af endurteknum tímabilum þar sem fólk borðar óhóflegt magn af mat á stuttum tíma. Eftir að matur hefur verið borðaður er algengt að fólk finni fyrir þunglyndi eða samviskubiti og reyni að losa sig við hitaeiningarnar (t.d. með uppköstum eða hægðalosandi lyfjum) til að koma í veg fyrir að þyngjast.
- Lotuofát / átkastaröskun (binge eating disorder): Einkennist af endurteknum, stjórnlausum átköstum þar sem mikils magsn matar er neytt á stuttum tíma. Ekki eru notaðar losunaraðferðir til að losa sig við hitaeiningar.
- Sértæk átröskun (ARFID): Einkennist af því að fólk neytir ekki ákveðins matar vegna áferðar, lyktar, litar eða hitastigs. Markmiðið er ekki að grennast eða hafa stjórn á aðstæðum, heldur getur fólk ekki borðað eitthvað.