Hvað er streita? | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

STREITUSTJÓRNUN | NÁÐU TÖKUM Á STREITUNNI

Námskeið við streitu

Mín líðan býður upp á 5 tíma námskeið á netinu við streitu. Tímarnir innihalda fræðslu, æfingar, spurningalista og verkefnabók. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð. Þú lærir árangursríkar aðferðir til að draga úr streitu í daglegu lífi og auka vellíðan. Þér er kennt að minnka kröfur til þín, hætta að fresta hlutum og leyfa þér að slaka á. Markmiðið er að þú náir tökum á streitunni!

19.900 kr.

fyrir námskeiðið

11.150 kr./mán.

Í tvo mánuði.
Heildargreiðsla: 22.300 kr.

HVAÐ ER STREITA?

Streita

Streita er eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir á einhverjum tímapunkti í lífinu. Streita er viðbragð líkamans við andlegu, líkamlegu eða tilfinningalegu álagi. Við getum fundið fyrir streitu í ýmsum aðstæðum, t.d. þegar mikið álag er á okkur í vinnu eða einkalífi. Fólk finnur fyrir streitu við mismunandi aðstæður og það sem kallar fram streitu hjá einni manneskju hefur ekki endilega áhrif á einhvern annan.

Streituvaldandi aðstæður eru hluti af daglegu lífi. Streita er ekki alltaf slæm, hæfileg streita getur verið mjög hjálpleg. Streita hvetur okkur áfram, hjálpar okkur að mæta áskorunum, skerpir athygli okkar og við stöndum okkur oft best og náum mestum árangri þegar við finnum fyrir örlítilli streitu.

 

Óhófleg streita

Þegar streita verður viðvarandi og truflar daglegt líf er hún ekki lengur hjálpleg. Þegar við erum undir miklu álagi í langan tíma getur það haft slæm áhrif á okkur og valdið því að við erum með sífelldar áhyggjur, þráðurinn verður styttri, við getum átt erfitt með að einbeita okkur og átt í erfiðleikum með svefn. Líkami okkar ræður við minniháttar streitu en langvarandi, viðvarandi og óhófleg streita getur gert okkur erfiðara fyrir að takast á við daglegt líf og dregið úr lífshamingju okkar. 

Með því að þekkja eigin einkenni streitu eigum við auðveldara með að meta hvenær við finnum fyrir „eðlilegri streitu” og hvenær ástandið gæti talist sem vandamál. Einkenni streitu eru mismunandi milli fólks en geta verið eftirfarandi:

Dæmi um einkenni streitu

Áhyggjur og ótti

Að finna fyrir áhyggjum gagnvart fortíð, nútíð og framtíð ásamt almennri vanlíðan.

Neikvæðar hugsanir

Að gagnrýna sjálfan sig á ósanngjarnan hátt ásamt því að gera miklar kröfur til sín.

Þreyta og úthaldsleysi

Að finna fyrir þreytu yfir daginn og endast stuttlega í því sem fólk tekur sér fyrir hendur.

Eirðarleysi og óróleiki

Erfiðleikar með að vera kyrr.

Einbeitingarerfiðleikar

Eiga erfitt með að halda einbeitingu og finnast erfitt að taka ákvarðanir.

Minniserfiðleikar

Eiga erfiðara með að muna hluti.

Svefnerfiðleikar

Að finnast erfitt að sofna eða halda sér sofandi, vakna fyrr en venjulega og geta ekki sofnað aftur eða aukin svefnþörf.

Að vera uppspenntur

Að vera sífellt á verði og eiga erfitt með að ná sér niður.

Skapsveiflur

Mismunandi tilfinningar koma og fara hratt.

Ýmis líkamleg einkenni

Að finna fyrir líkamlegum einkennum (sjá nánar hér fyrir neðan).

Aukinn pirringur, reiði, depurð og/eða kvíði

Styrkleiki neikvæðra tilfinninga eykst.

Hver er munurinn á streitu og kvíða?

Það getur verið fín lína á milli streitu og kvíða og oft getur verið erfitt að greina þar á milli. Streitu er hægt að skilgreina sem viðbragð við ytra áreiti (t.d. álag í vinnu eða rifrildi við ástvin) á meðan kvíði er skilgreindur sem viðvarandi, óhóflegar áhyggjur sem minnka ekki þrátt fyrir að ytri aðstæður breytist (t.d. að álag í vinnu minnki).

 

Hvað gerist í líkamanum þegar við finnum fyrir streitu?

Þegar við teljum okkur vera í hættu undirbýr líkami okkar sig til að takast á við hættuna. Þetta lífeðlisfræðilega streituviðbragð kallast berjast-eða-flýja viðbragðið (fight-or-flight response) og er svörun líkamans við einhvers konar streituvaldi.

Þegar við stöndum frammi fyrir hættulegum aðstæðum getum við barist (þ.e. tekist á við óttann) eða flúið (þ.e. forðast óttann). Þetta viðbragð þjónaði mikilvægum tilgangi áður fyrr þegar forfeður okkar lentu í hættulegum aðstæðum, t.d. andspænis villtum dýrum. Ef að ljón varð á vegi þeirra þurftu þeir annað hvort að flýja ljónið eða berjast við það. Þannig að þetta viðbragð gerir okkur kleift að takast á við mögulega hættu. Þó að ólíklegt sé að við hittum villt dýr á förnum vegi hefur hættan breyst. Við upplifum t.d. hættu þegar mikið álag er á okkur, þegar við þurfum að fara í búð eftir vinnu með börnin eða þegar við þurfum að skila mikilvægu verkefni í skólanum.

Þegar að við teljum okkur vera í hættu finnum við fyrir streitu og líkamsstarfsemi okkar breytist. Líkaminn framleiðir streituhormón og við finnum fyrir ýmsum líkamlegum einkennum sem er ætlað að hjálpa okkur að takast á við hættulegar aðstæður. Hér eru dæmi um líkamleg einkenni:

Ör hjartsláttur

Hjartað slær hraðar sem leiðir til þess að blóðið rennur hraðar um æðar okkar sem gefur okkur meiri orku.

Doði eða kuldi í höndum/fótum

Blóðið fer úr ystu útlimunum (fingrum og tám) og andlitinu og færist til stóru vöðvanna. Okkur getur þá orðið kalt á útlimunum.

Ör öndun

Öndunin verður hraðari (og oft grynnri) svo súrefnisupptaka líkamans aukist og við fáum meiri orku. Það getur leitt til oföndunar, andþyngsla, svima, brjóstverks, kökk í hálsi, köfnunartilfinningar og erfiðleika með að kyngja.

Vöðvaspenna

Vöðvarnir spennast svo við getum verið fljótari að bregðast við. Við stífnum oft í öxlunum, finnum fyrir titringi eða skjálfta, fáum hausverk eða finnum fyrir öðrum verkjum.

Sviti

Við svitnum svo að líkaminn geti kælt sig. Þess vegna finnum við oft kulda- eða hitahroll eða svitnum í lófunum.

Meltingartruflanir

Blóðið fer frá meltingarkerfinu og til stóru vöðvanna sem getur leitt til munnþurrks, ógleði, fiðrings í maganum eða niðurgangs.

Önnur einkenni

Þreyta, máttleysi, skjálfandi rödd, spennt raddbönd, roði, tíð þvaglát og​ minni kynhvöt.

UPPLÝSINGAR UM STREITU

Gott að vita um streitu

Streita getur verið hjálpleg
Hæfileg streita getur verið mjög hjálpleg og bætt frammistöðu okkar, en viðvarandi streita sem truflar daglegt líf er ekki hjálpleg.
  • Streita er eðlileg tilfinning!
Hægt er að ná tökum á streitu
Hægt er að draga úr einkennum streitu með því að tileinka sér árangusríkar, gagnreyndar aðferðir sem farið er yfir á námskeiðinu.
  • Fyrsta skrefið er mikilvægast!
Hverjir upplifa streitu?
Allir geta fundið fyrir einkennum streitu. Streita kemur fram hjá konum og körlum á öllum aldri, í öllum stéttum og öllum kynþáttum.
  • Þú ert ekki ein(n), margir eru í sömu sporum!

Hvernig lærir þú að draga úr einkennum streitu?

Námskeið við streitu hjálpar þér að:

Þekkja helstu einkenni streitu

Þú lærir hvað streita felur í sér og hvers vegna þú finnur fyrir henni í daglegu lífi.

Brjóta upp vítahring streitu

Þú lærir aðferðir sem hjálpa þér að brjóta upp þann vítahring sem þú ert í.

Breyta neikvæðum hugsunarhætti

Þú lærir að koma auga á óhjálplegar hugsanir og sjá þær út frá nýju sjónarhorni.

Breyta óhjálplegri hegðun

Þú lærir m.a. að hætta að fresta hlutum, gera minni kröfur til þín og lærir ýmsar slökunaraðferðir.

NETNÁMSKEIÐ VIÐ STREITU

Náðu tökum á streitunni!

Þeir sem finna fyrir streitu eiga oft erfitt með að taka fyrsta skrefið. Oft veit fólk ekki hvernig það á að fara að því að draga úr streitunni. Námskeið á netinu við streitu er frábær kostur til að byrja að minnka streituna. Það skiptir ekki máli hvort þú finnir fyrir streitu i í ákveðnum aðstæðum eða almennt í daglegu lífi, námskeiðið getur verið þægileg leið til að stíga fyrsta skrefið í átt að betri líðan. Á námskeiðinu lærir þú að brjóta upp vítahring streitu sem felur m.a. í sér að gera minni kröfur til sín og gefa sér tíma til að slaka á. Markmiðið er að þú náir tökum á streitunni!