SMART markmið | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað eru SMART markmið?

SMART markmið

Mín líðan mælir með að nota SMART markmiðasetningu. SMART markmið​ eru: 1) skýr, 2) mælanleg, 3) aðgerðamiðuð, 4) raunhæf og 5) takmörkuð við tíma.

SKÝR
Markmiðið verður að vera skýrt ​og skipta þig máli. Þú þarft að tilgreina á nákvæman hátt hverju þú vilt ná fram. Því skýrara sem markmiðið er, því líklegra er að þú náir því.

MÆLANLEG
Markmiðið verður að vera mælanlegt​. Mælanlegt markmið hjálpar þér að meta árangurinn og sjá hvort og hvenær markmiðinu hefur verið náð. Markmið geta verið mælanleg í tíma, fjölda, magni, gæðum o.s.frv.

AÐGERÐAMIÐUÐ
Markmiðið verður að vera aðgerðamiðað​. Nauðsynlegt er að tilgreina hvernig þú ætlar að ná markmiðinu og lýsa því á nákvæman hátt. Hugsaðu um hvað þú þarft að gera til að ná markmiðinu og veltu fyrir þér hvort þú hafir allt sem til þarf.

RAUNHÆF
Markmiðið verður að vera raunhæft​, þ.e. þú verður að vilja og geta náð því. Settu þér markmið sem þú trúir að þú getir náð. Þú eykur líkur á að ná markmiðinu ef það er í samræmi við þitt andlega og líkamlega ástand, getu þína, hæfni, aldur og reynslu. Ef markmiðið er stórt er skynsamlegt að skipta því niður í nokkur skammtímamarkmið sem hægt er að ná á styttri tíma.

TAKMÖRKUÐ VIÐ TÍMA
Markmiðið verður að vera takmarkað við tíma. Mikilvægt er að þú setjir raunhæf tímamörk á markmiðið, annars er mjög freistandi að fresta því. Þú þarft að ákveða hversu langan tíma þú gefur þér til að ná markmiðinu, t.d. einn dag, eina viku, einn mánuð, sex mánuði eða eitt ár. Þó að þú setjir tímamörk á markmiðið er gott að vera sveigjanleg(ur) ef aðstæður hjá þér breytast.

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Sálfræðimeðferð á netinu

Viltu setja þér markmið varðandi bætta líðan? Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr sálrænum vanda með: 1) Staðlaðri sálfræðimeðferð á netinu eða 2) fjarviðtölum.

Stöðluð sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu við vægum til miðlungs einkennum þunglyndis, félagskvíða og einnig við lágu sjálfsmati. Meðferðartímarnir innihalda fræðslu, verkefni, æfingar og spurningalista. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Öll samskipti fara fram í gegnum skrifaðan texta. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er á öruggu heimasvæði Mín líðan yfir áskriftartímann. Hægt er að prófa frían kynningartíma. Markmiðið er að þú náir tökum á þinni líðan með aðstoð sálfræðings!

Fjarviðtöl

Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, s.s. lágu sjálfsmati, einkennum þunglyndis, almenns kvíða, félagskvíða og streitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.