ADHD | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er ADHD?

ADHD

ADHD (e. attention deficit hyperactivity disorder) er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram á ævinni (fyrir 12 ára aldur). Allir finna fyrir einkennum sem líkjast ADHD á einhverjum tímapunkti í lífinu og þá er ekki um röskun að ræða. ADHD einkenni barna og fullorðinna geta vera mismunandi og verður nú farið yfir algeng einkenni hjá fullorðnum. Helstu einkenni ADHD eru:

  • Athyglisbrestur: Athyglisbrestur hjá fullorðnum er yfirleitt helsta vandamálið. Hann felur m.a. í sér erfiðleika með einbeitingu og að halda athygli lengi í einu við sama verkefni. Algengt er að fólk fari úr einu í annað og eigi erfitt með að byrja á verkefnum og ljúka þeim. Fólk er oft með mörg verkefni í gangi á sama tíma. Fólk getur átt í minniserfiðleikum (t.d. að gleyma læknatímum eða að greiða reikninga) og er gjarnt á að týna hlutum og eyða miklum tíma í að leita að þeim. Fólk getur átt erfitt með að hlusta á aðra, skipuleggja sig, fylgja leiðbeiningum og er oft annars hugar.
  • Ofvirkni: Ofvirkni er einkenni sem er oft til staðar í barnæsku en minnkar þegar fólk eldist. Ofvirkni felur m.a. í sér að vera sífellt á iði og gera margt á sama tíma. Ofvirkni getur haft áhrif á hugsun og eru margir sem upplifa að hugsanirnar þjóti hjá. Fólk talar oft hratt og mikið og getur glímt við svefnerfiðleika þar sem erfitt getur verið að slökkva á huganum.
  • Hvatvísi: Hvatvísi felur í sér að gera eða segja hluti án þess að hugsa það til enda. Algeng einkenni eru fljótfærni, pirringur, óþolinmæði, slæm tilfinningastjórn og truflandi framkoma (t.d. að grípa fram í fyrir öðrum eða að taka vanhugsaðar og fljótfærnislegar ákvarðanir).

Einstaklingur getur fundið fyrir öllum einkennum, en athyglisbrestur getur líka verið til staðar án þess að honum fylgi ofvirkni eða hvatvísi. ADHD hefur mikil áhrif á daglegt líf, m.a. líðan, námsgöngu, heimilislíf, samskipti og vinnu. Orsakir ADHD eru af líffræðilegum toga og stafa af truflun í boðefnakerfi heilans. ADHD er með sterkan erfðaþátt. Algengir fylgikvillar ADHD eru kvíði og depurð.

 

 

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Sálfræðimeðferð á netinu

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr sálrænum vanda með: 1) 10 tíma staðlaðri sálfræðimeðferð á netinu eða 2) fjarviðtölum.

Stöðluð sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu við vægum til miðlungs einkennum kvíða, þunglyndis, félagskvíða og einnig við lágu sjálfsmati. Meðferðartímarnir innihalda fræðslu, verkefni, æfingar og spurningalista. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Öll samskipti fara fram í gegnum skrifaðan texta. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er á öruggu heimasvæði Mín líðan yfir áskriftartímann. Hægt er að prófa frían kynningartíma. Markmiðið er að þú náir tökum á þinni líðan með aðstoð sálfræðings!

Fjarviðtöl

Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, s.s. lágu sjálfsmati, einkennum þunglyndis, almenns kvíða, félagskvíða og streitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.