Sjálfsvígshugsanir | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað eru sjálfsvígshugsanir?

Sjálfsvígshugsanir

Ert þú með sjálfsvígshugsanir? Þú ert ekki ein(n)! Sjálfsvígshugsanir eru algengar þegar fólk finnur fyrir mikilli vanlíðan. Margir upplifa sjálfsvígshugsanir á einhverjum tímapunkti í lífinu og eru slíkar hugsanir yfirleitt tímabundnar. Óþægilegt getur verið að fá slíkar hugsanir upp í hugann og geta þær valdið hræðslu hjá fólki. Sjálfsvígshugsanir geta verið eitt af einkennum geðraskana, en þær geta einnig komið fram hjá fólki sem gengur í gegnum erfiðan lífsatburð.

Hvað eru sjálfsvígshugsanir?

Sjálfsvígshugsanir eru hugsanir um að vilja deyja með því að taka eigið líf. Fólk upplifir að aðrir séu betur settir án þess. Sjálfsvígshugsanir fela einnig í sér að hugsa um aðferðir til að taka eigið líf, eða undirbúa og skipuleggja hvernig hægt sé að taka eigið líf. Mismunandi er hversu lengi sjálfsvígshugsanir vara, en þær eru yfirleitt tímabundar. Hægt er að fá aðstoð við að takast á við sjálfsvígshugsanir (sjá nánar hér fyrir neðan). Því fyrr sem þú talar við einhvern um hvernig þér líður eða leitar þér aðstoðar, því fyrr mun þér líða betur.

Erfitt getur verið að tala við aðra um sjálfsvígshugsanir, oft vegna ótta við viðbrögð annarra. Það getur verið erfitt að koma þessum hugsunum í orð og þú gætir haft áhyggjur af því að fólk dæmi þig eða skilji ekki hvað þú ert að ganga í gegnum. Gott getur verið að byrja á að tala við einhvern sem þú treystir og fá aðstoð hjá viðkomandi með næstu skref.

Hvað er sjálfsvíg?

Sjálfsvíg felur í sér að taka viljandi eigið líf. Það er stundum leið fyrir fólk til að losna við sársauka eða þjáningu. Flestir sem fá sjálfsvígshugsanir gera ekki tilraun til sjálfsvígs og algengara er að fólk lifi af sjálfsvíg heldur en deyi við að reyna það. 

Hvert get ég leitað?

Ef þú ert með sjálfsvígshugsanir er mikilvægt að þú leiðir þér viðeigandi aðstoðar. Þú þarft ekki að burðast einn með slíkar hugsanir. Þú getur m.a.leitað aðstoðar á eftirfarandi stöðum:

  • Hjálparsími Rauða krossins, s. 1717 | Opið allan sólarhringinn
  • Netspjall Rauða krossins, www.1717.is | Opið allan sólarhringinn
  • Píeta samtökin, s. 552-2218 / www.pieta.is | Opið allan sólarhringinn
  • Netspjall Heilsuveru, www.heilsuvera.is | Opið frá kl. 8-22 alla daga
  • Bergið Headspace, fyrir fólk 25 ára og yngra, s. 571 5580 / www.bergid.is
  • Heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir
  • Sálfræðingar á einkastofu
  • Neyðarlínan, s. 112 í neyðartilvikum