Geðhvörf | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað eru geðhvörf?

Geðhvörf

Geðhvörf (einnig kallað geðhvarfasýki eða tvískautaröskun) er geðsjúkdómur sem veldur breytingum á skapi, orku, virkni og einbeitingu fólks og truflar virkni fólks. Algengast er að einkenni geðhvarfa komi fyrst fram á aldrinum 15 - 25 ára. Geðhvörf einkennast af geðsveiflum (þ.e. geðhæðartímabilum eða þunglyndislotum) þar sem fólk sveiflast í líðan:

  • Oflæti / manía (manic episode): Felur í sér geðhæðartímabil sem einkennist af mjög mikilli orku og meiri lífskrafti en venjulega. Hjá sumu fólki kemur manía fram sem aukinn pirringur. Algengt er að fólk sofi lítið og sé sífellt að án þess að verða þreytt eða orkulaust.
  • Örlyndi / hýpómanía  (hypomanic episode): Er vægari útgáfa af oflæti / maníu og varir í styttri tíma. Örlyndi einkennist einnig af meiri orku og krafti en truflar ekki daglegt líf fólks að jafn miklu leyti.
  • Þunglyndislota (depressive episode): Felur í sér tímabil þar sem þunglyndiseinkenni koma fram (t.d. mikil depurð, áhuga- og ánægjuleysi, svefnvandamál, breytingar á matarlyst, eirðarleysi, vonleysi, einbeitingarerfiðleikar o.fl.). Um er að ræða alvarlegar lotur sem geta varað lengi.

Talsverður tími getur liðið á milli geðsveifla og þess á milli er fólk í eðlilegu ástandi. Geðhvarfasýki skiptist í mismunandi undirflokka eftir birtingarmynd og hversu mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf. Dæmi um undirflokka eru geðhvarfasýki I, geðhvarfasýki II og hverfilyndi.

Geðhvarfasýki I

Einkennist af geðhæðartímabilum sem vara í a.m.k. 7 daga þar sem einkenni eru til staðar nánast á hverjum degi, mestallan daginn - eða af maníueinkennum sem eru svo alvarleg að nauðsynlegt er að fá læknishjálp strax. Yfirleitt koma þunglyndislotur einnig fram (venjulega í a.m.k. 2 vikur). Einnig er hægt að finna fyrir þunglyndis- og maníeinkennum á sama tíma.

Geðhvarfasýki II

Einkennist af örlyndis- og þunglyndistímabilum.

Hverfilyndi

Er vægasta útgáfan af geðhvörfum og felur í sér endurtekin örlyndis- og þunglyndistímabil þar sem einkenni eru ekki jafn alvarleg og í geðhvarfasýki I og II eða vara ekki jafn lengi.

Einkenni maníu / hýpómaníu

Aukið sjálfstraust

Mun meira sjálfstraust en venjulega, t.d. finnast maður geta gert hluti sem aðrir gætu ekki eða finnast maður vera sérstaklega merkileg eða mikilvæg persóna.

Minni svefn

Minni þörf fyrir svefn (t.d. finnast maður vera úthvíld(ur) eftir stuttan svefn).

Talar meira

Að tala mjög mikið og viðstöðulaust eða svo hratt að fólk á erfitt með að skilja mann.

Margar hugsanir

Sú upplifun að hugsanir þjóti svo hratt um hugann erfitt er að ráða við þær.

Skortur á einbeitingu

Erfiðleikar með einbeitingu, lítið þarf til að dreifa athyglinni.

Mikil virkni

Að vera mjög virkur eða líkamlega óróleg(ur).

Áhættuhegðun

Að framkvæma ánægjulega hluti en hundsa áhættuna eða afleiðingarnar sem þeim fylgir (t.d. kaupæði eða óhófleg peningaeyðsla, glæfraakstur eða fyrirhyggjulaust kynlíf).

Einkenni þunglyndis

Viðvarandi depurð

Viðvarandi depurð, þungt skap eða pirringur.

Áhuga- og/eða ánægjuleysi

Áhugaleysi og/eða ánægjuleysi gagnvart hlutum sem vöktu áður áhuga eða veittu ánægju.

Breyting á matarlyst

Lystarleysi eða ofát. Sumir upplifa þess vegna mikla þyngdarbreytingu.

Svefnerfiðleikar

Að finnast erfitt að sofna eða halda sér sofandi, vakna fyrr en venjulega og geta ekki sofnað aftur eða aukin svefnþörf.

Eirðarleysi

Erfiðleikar með að vera kyrr eða að hreyfa sig hægar en venjulega.

Þreyta og orkuleysi

Að vera þreyttur mestallan daginn og finnast erfitt að framkvæma hluti sem áður voru auðveldir.

Sjálfsgagnrýni

Sektarkennd, sjálfsgagnrýni og finnast maður vera einskis virði.

Erfiðleikar með einbeitingu

Eiga erfitt með að halda einbeitingu og finnast erfitt að taka ákvarðanir.

Hugsanir um dauðann

Að óska þess að maður sé dáinn eða sjálfsvígshugsanir.