Hvað eru geðhvörf?
Geðhvörf
Geðhvörf (einnig kallað geðhvarfasýki eða tvískautaröskun) er geðsjúkdómur sem veldur breytingum á skapi, orku, virkni og einbeitingu fólks og truflar virkni fólks. Algengast er að einkenni geðhvarfa komi fyrst fram á aldrinum 15 - 25 ára. Geðhvörf einkennast af geðsveiflum (þ.e. geðhæðartímabilum eða þunglyndislotum) þar sem fólk sveiflast í líðan:
- Oflæti / manía (manic episode): Felur í sér geðhæðartímabil sem einkennist af mjög mikilli orku og meiri lífskrafti en venjulega. Hjá sumu fólki kemur manía fram sem aukinn pirringur. Algengt er að fólk sofi lítið og sé sífellt að án þess að verða þreytt eða orkulaust.
- Örlyndi / hýpómanía (hypomanic episode): Er vægari útgáfa af oflæti / maníu og varir í styttri tíma. Örlyndi einkennist einnig af meiri orku og krafti en truflar ekki daglegt líf fólks að jafn miklu leyti.
- Þunglyndislota (depressive episode): Felur í sér tímabil þar sem þunglyndiseinkenni koma fram (t.d. mikil depurð, áhuga- og ánægjuleysi, svefnvandamál, breytingar á matarlyst, eirðarleysi, vonleysi, einbeitingarerfiðleikar o.fl.). Um er að ræða alvarlegar lotur sem geta varað lengi.
Talsverður tími getur liðið á milli geðsveifla og þess á milli er fólk í eðlilegu ástandi. Geðhvarfasýki skiptist í mismunandi undirflokka eftir birtingarmynd og hversu mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf. Dæmi um undirflokka eru geðhvarfasýki I, geðhvarfasýki II og hverfilyndi.
Geðhvarfasýki I
Einkennist af geðhæðartímabilum sem vara í a.m.k. 7 daga þar sem einkenni eru til staðar nánast á hverjum degi, mestallan daginn - eða af maníueinkennum sem eru svo alvarleg að nauðsynlegt er að fá læknishjálp strax. Yfirleitt koma þunglyndislotur einnig fram (venjulega í a.m.k. 2 vikur). Einnig er hægt að finna fyrir þunglyndis- og maníeinkennum á sama tíma.
Geðhvarfasýki II
Einkennist af örlyndis- og þunglyndistímabilum.
Hverfilyndi
Er vægasta útgáfan af geðhvörfum og felur í sér endurtekin örlyndis- og þunglyndistímabil þar sem einkenni eru ekki jafn alvarleg og í geðhvarfasýki I og II eða vara ekki jafn lengi.