Félagskvíði | Mín líðan

Hvað er félagskvíði?

Eðlilegt er að upplifa stundum kvíða í félagslegum aðstæðum. Til dæmis upplifa margir kvíða þegar þeir fara í atvinnuviðtal, fara á stefnumót eða halda ræðu. Þegar kvíðinn er óhóflega mikill og viðvarandi getur verið að fólk upplifi félagskvíða.

Félagskvíði (einnig þekkt sem félagsfælni) felur í sér mjög mikla hræðslu við eina eða fleiri félagslegar aðstæður. Félagslegar aðstæður eru allar aðstæður þar sem við sjálf og annað fólk er til staðar, til dæmis að halda uppi samræðum, tala við ókunnuga, halda fyrirlestur, fara í veislu og segja nei við aðra.

Fólk upplifir kvíða í félagslegum aðstæðum eða við að hugsa um slíkar aðstæður. Ástæða kvíðans er hræðsla við að koma illa fyrir, gera sig að athlægi (t.d. með því að segja eða gera eitthvað vitlaust) og verða metinn á neikvæðan hátt af öðrum. Þeir sem upplifa félagskvíða gera ráð fyrir því versta í félagslegum aðstæðum. Þeir gera ekki endilega eitthvað til að verða sér til skammar en óttast að það muni gerast eða halda að þeir hafi orðið sér til skammar.

Félagskvíði getur verið sértækur og átt við ákveðnar félagslegar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga) eða almennur og átt við flestar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga, borða fyrir framan aðra, tala fyrir framan aðra o.s.frv.). Fólk gerir sér grein fyrir að kvíðinn er óhjálplegur og órökréttur en veit ekki hvernig það á að takast á við hann. Einkenni félagskvíða geta verið breytileg hverju sinni og aukist þegar fólk er undir miklu álagi.

Önnur einkenni félagskvíða

Að forðast félagslegar aðstæður sem valda kvíða.

Að vera meðvitaður um sjálfan sig í félagslegum aðstæðum.

Að flýja úr félagslegum aðstæðum sem valda kvíða.

Að eyða miklum tíma í að hugsa um hvernig maður kemur öðrum fyrir sjónir eftir að maður yfirgefur aðstæðurnar.

Að þrauka félagslegar aðstæður en upplifa mjög mikinn kvíða.

Að einblína á hvað maður sagði eða gerði vitlaust.

Ótti við að aðrir taki eftir líkamlegum kvíðaeinkennum (t.d. roði, sviti, skjálfti og spennt raddbönd).

Líkamleg einkenni, t.d. hiti í andliti, hraður hjartsláttur, skjálfti, sviti, magaverkur, erfiðleikar með andardrátt, svimi og vöðvaspenna.

Að eiga erfitt með að gera hluti þegar aðrir eru að fylgjast með.

Meðferð við félagskvíða

Ert þú með einkenni félagskvíða?

Ef þú telur þig vera með einkenni félagskvíða er meðferð hjá Mín líðan frábær kostur fyrir þig. Meðferðinni er skipt í 10 tíma sem innihalda fræðslu, verkefni og æfingar. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Í meðferðinni lærir þú að minnka kvíða í félagslegum aðstæðum. Þú hefur aðgang að þínum sálfræðingi yfir alla meðferðina.

Markmiðið er að þér líði vel í félagslegum aðstæðum!

Meðferðin hjálpar þér að

Þekkja einkenni félagskvíða

Brjóta upp vítahring félagskvíða

Takast á við kvíða í félagslegum aðstæðum

Hætta að forðast félagslegar aðstæður

Algengi félagskvíða

Þú ert ekki ein(n) um að þjást af félagskvíða. Margir upplifir félagskvíða um allan heim, hann háir um 12% fólks. Það þýðir að þú þekkir líklegast einhvern sem er með einkenni félagskvíða! Félagskvíði er ein algengasta gerð kvíða sem fólk upplifir. 

Hverjir upplifa félagskvíða?

Allir geta upplifað félagskvíða. Hann kemur fram hjá konum og körlum á öllum aldri, í öllum stéttum og öllum kynþáttum. Konur eru líklegri til að upplifa félagskvíða heldur en karlar.

Hvenær er félagskvíði vandamál?

Félagskvíði veldur vandræðum þegar hann er óhóflega mikill og hefur áhrif á mismunandi svið lífsins, t.d. frammistöðu í vinnu eða skóla, sambönd við fjölskyldu og vini, frístundir, áhugamál og daglegar athafnir.

Félagskvíði getur valdið vandræðum í vinnu og skóla ef að maður getur t.d. ekki farið í atvinnuviðtöl eða svarað spurningum fyrir framan aðra. Hann getur verið vandamál í samböndum ef maður getur ekki kynnst öðru fólki, farið á stefnumót og sagt nei við aðra. Félagskvíði getur valdið vandræðum í frístundum þegar maður forðast að gera nýja hluti, fara á námskeið eða hreyfa sig. Hann getur að lokum valdið vandræðum ef að hann kemur í veg fyrir daglegar athafnir eins og að versla í matinn, sækja börnin í skólann, fara í afmælisboð og fara út að borða o.s.frv.

Meðferð við félagskvíða

Mín líðan býður upp á meðferð á netinu við einkennum félagskvíða. Þeir sem upplifa félagskvíða eiga oft erfitt með að leita sér hjálpar vegna erfiðleika við að tala við aðra um hvað er að trufla þá. Meðferð á netinu er þægileg leið til að komast til móts við þá einstaklinga og hjálpar þeim að stíga fyrsta skrefið í átt að betri líðan.

Nánar um meðferðina 

Mín líðan styðst við vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.